Íslenski boltinn

Baldur: Leikskipulagið gekk frábærlega upp

Ómar Þorgeirsson skrifar
Baldur Sigurðsson í leiknum í kvöld.
Baldur Sigurðsson í leiknum í kvöld. Mynd/Valli

Mývetningurinn Baldur Sigurðsson skoraði fyrra mark KR í 2-0 sigrinum á Larissa í Evrópudeild UEFA á KR-velli í kvöld.

Baldur var óþreytandi í hlaupum sínum og vinnuframlagi fyrir KR og var að vonum sáttur í leikslok.

„Ég er gríðarlega sáttur eftir þennan leik og það má segja að allt hafi gengið upp hjá okkur. Það er líka enn sætara að vinna svona leiki þegar maður er gjörsamlega búinn í leikslok eftir öll hlaupin. Leikskipulagið tókst frábærlega hjá okkur í kvöld. Við náðum að þétta miðjuna vel hjá okkur því við vissum að þeir yrðu með þrjá menn þar sem væru tæknilega góðir og vildu spila mikið af þríhyrningum og svoleiðis en okkur tókst að loka á það," segir Baldur ánægður.

Baldur veit þó fyrir víst að KR-ingar eiga enn langt í land með að tryggja sig áfram þrátt fyrir frábæran sigur í kvöld.

„Það er enn mikið eftir af þessu og við gerum okkur grein fyrir því að leikurinn úti verður mjög erfiður. Við eigum örugglega eftir að spila þarna í miklum hita og þeir verða með brjálaða gríska aðdáendur á bak við sig. Við tökum samt mikið frá þessum leik í kvöld og þurfum að spila sama leik úti. Þeir þurfa að skora þrjú mörk á okkur til þess að komast áfram og staða okkar er því vissulega góð," segir Baldur að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×