Framherjinn eitraði Henrik Larsson hefur ákveðið að framlengja samning sinn við Helsingborg út næstu leiktíð.
Larsson hefur verið á mála hjá heimaliði sínu síðan eftir HM árið 2006 en var til skamms tíma á lánssamningi hjá Manchester United árið 2007.
Larsson verður 38 ára gamall á árinu og spilaði sinn 102. landsleik fyrir Svía í nóvember þegar liðið tapaði 3-1 fyrir Hollendingum í æfingaleik.
Deildakeppnin í Svíþjóð hefst þann 4. apríl næstkomandi en á heimasíðu Helsingborg kemur fram að Larsson muni væntanlega skrifa undir nýja samninginn innan tveggja vikna.