Birgir Leifur Hafþórsson er úr leik á Joburg Open mótinu í golfi sem fram fer í Suður-Afríku.
Keppni var frestað vegna þrumuveðurs þegar Birgir átti þrjár holur eftir á öðrum hring, en hann var þá á tveimur höggum yfir pari vallar og þremur í heildina.
Það er því ljóst að Birgir á ekki möguleika á að komast í gegn um niðurskurðinn á mótinu því hann miðast við þá sem leika á tveimur höggum undir pari eða betur.
Skotinn David Drysdale var í efsta sæti mótsins þegar keppni var frestað á ellefu höggum undir pari.