Handbolti

Óskar Bjarni: Synd að annað liðið þurfti að detta út

Elvar Geir Magnússon skrifar
Óskar Bjarni Óskarsson.
Óskar Bjarni Óskarsson.

„Þetta var algjörlega okkar leikur og við áttum aldrei að hleypa spennu í þetta undir lokin," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir sigur á HK í 32-liða úrslitum Eimskipsbikarsins. Valur vann 27-26.

„Spennan í kringum bikarleiki vill oft vera öðruvísi en í öðrum leikjum. Við skutum illa í byrjun og varnarlega vorum við að leysa kerfin rangt. Svo náði þetta loks að smella. Við vorum að skapa okkur ágætis færi í byrjun en vörnin var einfaldlega léleg," sagði Óskar við Vísi.

Valsmenn byrjuðu leikinn virkilega illa en náðu sér síðan á flug. Undir lokin kom síðan óvænt spenna og HK hafði færi á að jafna. „Fúsi (Sigfús Sigurðsson) meiddist á hnénu og þá fengum við þrjú mörk á okkur í röð. Þá fórum við aftur að spila varnarleikinn með röngum hætti. HK er það gott lið að það refsar," sagði Óskar.

Hann segir það í raun algjöra synd að lið HK sé dottið út. „Þeir voru góðir varnarlega og voru með flott kerfi í sóknarleiknum. Það er því leiðinlegt að þeir séu ekki meira með í bikarnum. Þetta er lið sem á að komast í undanúrslit. En bikar er bara bikar. Þetta var víst þriðja árið í röð sem HK-ingar tapa með einu marki gegn ríkjandi bikarmeisturum í þessari keppni."

„Við erum ríkjandi bikarmeistarar en deildin er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur. Bikarkeppnin snýst meira um heppnina, þú sérð að við fáum hérna HK í 32-liða úrslitum en hefðum getað fengið Stjörnuna 3. En auðvitað stefnum við á að komast í úrslitaleikinn, við förum í alla leiki með það markmið að vinna," sagði Óskar að lokum.


Tengdar fréttir

Valur vann HK með einu marki

Valur komst í kvöld áfram í Eimskips-bikarnum í handbolta með því að leggja HK að velli í sannkölluðum stórleik. Leikurinn endaði 27-26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×