Emmanuel Adebayor heldur öllu opnu og segir að Barcelona hafi gert mjög spennandi tilboð í þjónustu sína. AC Milan hefur hingað til verið í forystu í kapphlaupinu um leikmanninn.
Á dögunum tilkynnti Adebayor að hann yrði áfram hjá Arsenal en sagði nokkrum klukkustundum síðar við Sky fréttastofuna að ekkert væri ákveðið. Hann hefur nú sagt að hann hafi áhuga á að ganga til liðs við Barcelona.
„AC Milan er stórt félag en er ekki með í Meistaradeildinni næsta tímabil," sagði Adebayor. „Barcelona hefur gert hátt tilboð sem er mjög spennandi. Núverandi vinnuveitendur mínir hjá Arsenal þurfa að verða að mínum óskum eða ég fer."
Adebayor vill fá umtalsverða launahækkun hjá Arsenal.