Franska úrvalsdeildarfélagið Nancy hefur sett fram tilboð í Veigar Pál Gunnarsson, leikmann Stabæk.
Þetta kemur fram á norska vefmiðlinum Verdens Gang í dag. „Það kemur ekki á óvart að önnur félög sýni okkar leikmönnum áhuga," sagði Mimi Berdal, einn forráðamanna Stabæk, í samtali við VG. „Það væri heldur athyglisvert ef enginn hefði áhuga á þeim."
Veigar Páll hefur verið lykilmaður í Stabæk undanfarin ár en félagið varð norskur meistari nú í haust. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann er orðaður við önnur félagslið en Veigar Páll hefur áður lýst yfir áhuga sínum að reyna sig á nýjum vettvangi, þá helst í Þýskalandi.
Nancy varð í fjórða sæti á síðustu leiktíð í frönsku úrvalsdeildinni en gengi liðsins hefur verið slakt í haust og er liðið í fimmtánda sæti deildarinnar sem stendur.

