Fótbolti

Östenstad: Hannes ekki til sölu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Egil Östenstad í leik með Viking árið 2005.
Egil Östenstad í leik með Viking árið 2005. Nordic Photos / AFP

Egil Östenstad, yfirmaður íþróttamála hjá norska úrvalsdeildarliðinu Viking, segir að Hannes Þ. Sigurðsson sé ekki til sölu.

Tromsö gerði fyrr í haust tilboð í Hannes en því var hafnað. Forráðamenn liðsins hafa þó ekki gefist upp og undirbúa nú annað tilboð í hann.

Í gær var hann svo sagður efstur á óskalista sænska úrvalsdeildarliðsins GIF Sundsvall sem leitar sér nú að nýjum framherja.

En Östenstad sagði að hvorki hann né annar framherji hjá Viking, Peter Ijeh, væru til sölu.

„Þeir eru ekki til sölu. Öll félög sem spyrjast fyrir um þá fá sama svarið. Við munum ekki ræða við nein félög og þeir fara báðir í æfingaferðina til Brasilíu," sagði hann í gærkvöldi í samtali við Aftenposten.

Í morgun birtist hins vegar frétt í Roglands Avis þar sem segir að Ijeh fari ekki til Brasiíu þar sem Viking barst tilboð í hann sem félagið er tilbúið að skoða.

„Tilboðið er það áhugavert að það er góður möguleiki á því að Viking selji leikmanninn," er haft eftir Östenstad.

Hann vill ekki segja hvaða félag bauð svo rausnarlega í Ijeh en í norskum fjölmiðlum er leitt líkur að því að um Lyn sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×