Handbolti

Guðjón í 200 leikja klúbbinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðjón Valur spilar tímamótalandsleik í dag.
Guðjón Valur spilar tímamótalandsleik í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, leikur tímamótaleik gegn Spánverjum í Vodafonehöllinni í dag. Þá verður hann vígður inn í 200 landsleikjaklúbbinn og verður fimmtándi landsliðsmaðurinn í handknattleik til að ná þeim áfanga að leika 200 landsleiki.

Guðjón Valur klæddist landsliðsbúningnum fyrst í leik gegn Ítalíu í Haarlem í Hollandi 15. desember 1999 og hefur hann verið einn af lykilmönnum landsliðsins frá Evrópumóti landsliða í Króatíu 2000. Hann hefur leikið síðustu 64 landsleiki Íslands á tíu stórmótum, eða alla nema tvo fyrstu af sex á EM í Króatíu.

Einar Þorvarðarson, núverandi framkvæmdastjóri HSÍ, var fyrsti leikmaðurinn til að ná 200 landsleikja markinu. Hann lék sinn 200. landsleik gegn Tékkum í Laugardalshöllinni 21. janúar 1989. Á eftir Einari komust þeir Jakob Sigurðsson, 1990, Júlíus Jónasson, 1994, og Valdimar Grímsson, 1995, í 200 leikja klúbbinn.

Guðmundur Hrafnkelsson er sá leikmaður sem hefur leikið flesta landsleiki, eða 396 leiki. Aðeins einn annar leikmaður hefur leikið yfir 300 leiki. Það er Geir Sveinsson, sem lék 328 landsleiki.

Ólafur Stefánsson kemst upp í þriðja sætið á landsleikjalistanum í dag er hann leikur sinn 271. landsleik.

Eins og staðan er í dag eru mestar líkur á að Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson verði næstu leikmennirnir til að komast í 200 leikjaklúbbinn. Snorri Steinn hefur leikið 132 landsleiki og Róbert 130 landsleiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×