Fredrikstad er komið á topp norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Bodö/Glimt sem var lokaleikur fjórðu umferðarinnar.
Garðar Jóhannsson var í byrjunarliði Fredrikstad og Birkir Bjarnason sömuleiðis í byrjunarliði Bodö/Glimt.
Garðar fékk eitt ágætt færi í fyrri hálfleik en var svo skipt af velli á 58. mínútu þegar þjálfari Fredrikstad gerði tvöfalda skiptingu.
Varamennirnir tveir skoruðu síðan bæði mörk Fredrikstad á síðustu tíu mínútum leiksins.
Birki var einnig skipt af velli, á 74. mínútu. Bodö/Glimt er í tólfta sæti deildarinnar með fjögur stig.
Margir höfðu spáð Lilleström góðu gengi á leiktíðinni en athygli vekur að liðið er í botnsæti deildarinnar með tvö stig.