Tónlist

Kreppupönk í áttunda bekk

GarðabæjaRpönkarar sem hlusta á FM957 Litlu grýlurnar frá vinstri – Guðlaug hljómborðsleikari, Ásdís Halla bassaleikari, Ásdís Rún og Ingveldur gítarleikari.
fréttablaðið/arnþór
GarðabæjaRpönkarar sem hlusta á FM957 Litlu grýlurnar frá vinstri – Guðlaug hljómborðsleikari, Ásdís Halla bassaleikari, Ásdís Rún og Ingveldur gítarleikari. fréttablaðið/arnþór

Fjórar þrettán ára stelpur kynntust pönktónlist hjá tónmenntakennaranum sínum. Á fjórum vikum tókst þeim að spila lag og fá það leikið á Rás 2.

Nýjasta pönkbandið á Íslandi er skipað fjórum þrettán ára stelpum í Sjálandsskóla í Garðabæ. Þar kennir Ólafur Schram tónmenntir og lét áttunda bekk kynnast tónlistarstílum síðustu aldar með því meðal annars að semja, æfa og taka upp eitt lag. Krakkarnir stofnuðu bönd og bjuggu til rokk-, diskó- og kántrílög auk pönksins.

„Þetta var allt mjög flott hjá þeim, en pönkhljómsveitin hitti kannski naglann best á höfuðið. Pönkið er náttúrlega sá stíll sem minnstrar kunnáttu þarf til að flytja,“ segir Ólafur. Stelpurnar höfðu aldrei snert hljóðfæri áður, en tókst á fjórum vikum að skila frá sér mjög sannfærandi pönklagi. Það var meira að segja leikið á Rás 2 og þar gaf útvarpskonan Linda Blöndal sveitinni nafnið „Litlu grýlurnar“.

„Okkur fannst það nafn bara svolítið flott,“ segir söngkonan Ásdís Rún, sem trommar líka. „En við erum samt ekkert búnar að pæla í því hvort við höldum áfram. Kannski. Við hlustuðum á Rokk í Reykjavík til að læra um pönkið og leist ágætlega á þessa músik. En yfirleitt höfum við þetta bara auðvelt og hlustum á FM957.“

Í laginu, „Kreppa“, er ekkert verið að skafa utan af því. Þar segir meðal annars: „Ríkið er ekki heilbrigt. Gamlir verða að fara. Nýir menn koma og bjarga Íslandi!“ – „Já, þeir gömlu verða að fara,“ segir Ásdís. „Og aðrir verða að fá tækifæri til að taka við. Annars veit ég ekki mikið um þetta sjálf. Ég hef bara heyrt mikið talað um þetta.“

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×