Jólakötturinn Þórgunnur Oddsdóttir skrifar 19. desember 2008 04:00 Af öllu hyskinu hennar Grýlu hefur mér alltaf þótt jólakötturinn verstur. Strákapör jólasveinanna þrettán má fyrirgefa en gæludýrið á heimilinu er svo óforskammað að maður getur ekki annað en fyllst hryllingi við tilhugsunina. Grýla étur bara óþæg börn sem eiga það skilið en kötturinn hennar leggst svo lágt að ráðast á fátæklinga sem enga nýja flík fá fyrir jólin. Til allrar hamingju hefur jólakötturinn haft sig lítt í frammi undanfarin ár. Ég minnist þess alltént ekki að hafa lesið í blöðunum um dularfull mannshvörf á þessum árstíma sem rekja má til fataleysis. Við höfum líka flest átt nóg af rándýrum tískufatnaði nema þeir allra fátækustu og yfirdráttarlausu sem hafa getað reitt sig á græðgi okkar hinna sem neyðumst til að gefa Rauðakrossinum og Mæðrastyrksnefnd það sem flýtur út úr fataskápnum eða er orðið of þröngt yfir kviðinn. Líklegast er kötturinn löngu dauður úr hor þökk sé ofneyslu og kaupæði landans. En köttur kemur í kattar stað og nú er önnur skaðræðisskepna á sveimi. Hún á það skítlega eðli sameiginlegt með ketti Grýlu og Leppalúða að ráðast á þá efnaminnstu. Ég veit ekki hvað best er að kalla þetta óargardýr en í fréttum hefur það fengið nöfn eins og Kreppan og Ástandið. Enginn hefur bókstaflega verið étinn en dýrið er farið að narta all græðgislega í suma. Jólakötturinn er eins og gælinn kettlingur í samanburði við þessa skepnu. Hann mátti varast með því að útvega þó ekki væri nema nýja sokka fyrir jólin og var svo kurteis að láta okkur í friði nema rétt yfir hátíðirnar. Þessi nýja bleyða er hins vegar sest að í mannabyggð um óákveðinn tíma og enginn veit hvernig á að verjast. Líkt og kötturinn Bakkabræðra sem át allt dundar hún sér við að éta upp ævisparnað landsmanna og ellilífeyri gamla fólksins. Í nótt heyrði ég grimmilegt hvæs fyrir utan gluggann og mér fannst eins og það væri klórað í glerið. Ég veit það var ekki jólakötturinn því ég á glænýjan kjól inni í skáp. Ég þori varla að fara að sofa í kvöld. Trúlega hefur kreppukisi enga lyst á mér en er kominn til að éta upp launin mín, hækka matvælaverðið og hrifsa af mér húsnæðið. Síðan - þegar ég þarf að selja jólakjólinn til að eiga fyrir nauðþurftum - kemur jólakötturinn og klárar verkið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórgunnur Oddsdóttir Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun
Af öllu hyskinu hennar Grýlu hefur mér alltaf þótt jólakötturinn verstur. Strákapör jólasveinanna þrettán má fyrirgefa en gæludýrið á heimilinu er svo óforskammað að maður getur ekki annað en fyllst hryllingi við tilhugsunina. Grýla étur bara óþæg börn sem eiga það skilið en kötturinn hennar leggst svo lágt að ráðast á fátæklinga sem enga nýja flík fá fyrir jólin. Til allrar hamingju hefur jólakötturinn haft sig lítt í frammi undanfarin ár. Ég minnist þess alltént ekki að hafa lesið í blöðunum um dularfull mannshvörf á þessum árstíma sem rekja má til fataleysis. Við höfum líka flest átt nóg af rándýrum tískufatnaði nema þeir allra fátækustu og yfirdráttarlausu sem hafa getað reitt sig á græðgi okkar hinna sem neyðumst til að gefa Rauðakrossinum og Mæðrastyrksnefnd það sem flýtur út úr fataskápnum eða er orðið of þröngt yfir kviðinn. Líklegast er kötturinn löngu dauður úr hor þökk sé ofneyslu og kaupæði landans. En köttur kemur í kattar stað og nú er önnur skaðræðisskepna á sveimi. Hún á það skítlega eðli sameiginlegt með ketti Grýlu og Leppalúða að ráðast á þá efnaminnstu. Ég veit ekki hvað best er að kalla þetta óargardýr en í fréttum hefur það fengið nöfn eins og Kreppan og Ástandið. Enginn hefur bókstaflega verið étinn en dýrið er farið að narta all græðgislega í suma. Jólakötturinn er eins og gælinn kettlingur í samanburði við þessa skepnu. Hann mátti varast með því að útvega þó ekki væri nema nýja sokka fyrir jólin og var svo kurteis að láta okkur í friði nema rétt yfir hátíðirnar. Þessi nýja bleyða er hins vegar sest að í mannabyggð um óákveðinn tíma og enginn veit hvernig á að verjast. Líkt og kötturinn Bakkabræðra sem át allt dundar hún sér við að éta upp ævisparnað landsmanna og ellilífeyri gamla fólksins. Í nótt heyrði ég grimmilegt hvæs fyrir utan gluggann og mér fannst eins og það væri klórað í glerið. Ég veit það var ekki jólakötturinn því ég á glænýjan kjól inni í skáp. Ég þori varla að fara að sofa í kvöld. Trúlega hefur kreppukisi enga lyst á mér en er kominn til að éta upp launin mín, hækka matvælaverðið og hrifsa af mér húsnæðið. Síðan - þegar ég þarf að selja jólakjólinn til að eiga fyrir nauðþurftum - kemur jólakötturinn og klárar verkið.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun