Golf

Woods og Rocco í bráðabana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tiger Woods fagnar fuglinum á átjándu holu í gær.
Tiger Woods fagnar fuglinum á átjándu holu í gær. Nordic Photos / Getty Images

Tiger Woods og Rocco Mediate mætast í 18 holu bráðabana á opna bandaríska meistaramótinu í golfi í dag. Bráðabaninn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti og hefst klukkan 16.00.

Tiger gerði sér lítið fyrir og náði sér í fugl á átjándu og síðustu holunni í gær og tryggði sér þar með bráðabana gegn Mediate. Woods hefur unnið þrettán stórmót á ferlinum en Mediate aldrei.

Lee Westwood átti möguleika að komast í bráðabanann en náði ekki að setja niður pútt á átjándu og varð því í þriðja sæti.

„Þetta var ótrúlegt. Ég vissi að hann myndi ná þessu," sagði Mediate sem er í 157. sæti heimslistans. „Ég verð því að byrja að undirbúa mig fyrir baráttuna á morgun. Hversu oft fá kylfingar tækifæri til að mæta besta kylfingi heims í bráðabana á opna bandaríska?"

Þetta er í fyrsta sinn sem keppni á opna bandaríska meistaramótinu ræðst í bráðabana síðan að Retief Goosen bar sigurorð af Mark Brooks árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×