Íslenski landsliðsmaðurinn Veigar Páll Gunnarsson sagði í samtali við Ríkissjónvarpið að Stabæk væri enn í viðræðum við franska úrvalsdeildarliðið Nancy um kaup á sér.
Stabæk neitaði tilboði frá Nancy á dögunum en viðræður hafa staðið yfir og tilkynnti umboðsmaður Veigars honum í dag að þær væru að þokast í rétta átt og félögin væru nálægt því að ná samkomulagi.
Veigar Páll hefur verið lykilmaður í Stabæk undanfarin ár en félagið varð norskur meistari nú í haust. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Nancy varð í fjórða sæti á síðustu leiktíð í frönsku úrvalsdeildinni en gengi liðsins hefur verið slakt í haust og er liðið í fimmtánda sæti deildarinnar sem stendur.