Bíó og sjónvarp

Roy vann verðlaun Norðurlandaráðs

Roy Anderson hlaut kvikmyndaverðlaun Norður­landaráðs.
Roy Anderson hlaut kvikmyndaverðlaun Norður­landaráðs.

Sænski kvikmyndaleikstjórinn Roy Anderson og framleiðandi hans Pernilla Sandström fengu í gær kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2008 fyrir kvikmyndina Þið, sem lifið: „Í þessari stórkostlegu kvikmynd Þið, sem lifið veltir Roy Andersson fyrir sér lífinu, dauðanum og veikleikum mannskepnunnar. Með einstökum stílog tilþrifum í myndatöku og frásagnartakti vekur þessi sinfónía daglegs lífs okkur til umhugsunar um gildi kvikmynda, en kennir okkur líka að skynja kvikmyndafrásögn á nýjan hátt. Í stað hefðbundinnar línulegrar frásagnar er Þið, sem lifið gerð úr röð samsettra atriða, sögubrotum úr heimi sem er í senn dapur og afkáralega fyndinn. Þessar meinfyndnu og tragísku svipmyndir sýna okkur manninn í sinni fegurstu og ljótustu mynd, þær koma okkur til að hlæja og vekja okkur til umhugsunar. Í stuttu máli minnir Þið, sem lifið okkur á kosti kvikmyndarinnar, að hún getur miðlað afar persónulegri sýn á heiminn,“ segir í áliti dómnefndar. Myndin var frumsýnd í Cannes 2007 í Un Certain Regard-keppninni. Hún var framlag Svía til Óskarsverðlaunanna. Hún vann einnig til Gullþrennu-verðlaunanna í Chicago í ár og er tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Anderson sagði í gær verðlaunin hafa mikla þýðingu: „ Ég tel ástæðu til að hrósa Norðurlandaráði fyrir viðleitni til að setja kvikmyndina á stall og meta sem æðri list, eins og gert hefur verið með öðrum verðlaunum fyrir tónlist og bókmenntir. En auk þess heiðurs sem verðlaunin eru mér skipta þau einnig máli í raun, vegna þess að peningarnir sem fylgja viðurkenningunni veita mér einstakt tækifæri til að flýta rannsókn og handritagerð fyrir næstu kvikmynd mína, en þar mun mér gefast tækifæri til að nýta nýja tækni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×