Innlent

Klessur og útafakstur

Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt.
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt.

Sex umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Á Þingvallavegi skömmu eftir miðnætti sofnaði ökumaður undir stýri með þeim afleiðingum að bíllinn fór út í skurð og hafnaði á hliðinni. Ökumann sakaði ekki.

Laust fyrir klukkan eitt valt bifreið á Höfðbakka eftir að ökumaður missti stjórn á henni í beygju. Hann slapp með minniháttar meiðsl.

Á sama tíma keyrði ungur ökumaður á tvær kyrrstæðar vörubifreiðar á Krókhálsi. Fimm voru í bílnum auk ökumanns en meiðsl eru ekki talin alvarleg. Bíllinn er gjörónýtur að sögn lögreglu. Farþegarnir voru sumir undir lögaldri og voru foreldrar látnir vita. Grunur leikur á að ekið hafi verið, býsna hratt.

Skömmu eftir þrjú í nótt varð árekstur á Njarðargötu þegar bifreið var ekið í veg fyrir aðra sem kom úr gangstæðri átt. Farþegi annars bílsins var ekki með belti og skall í framrúðuna. Meiðsl eru þó ekki talin alvarleg.

Laust eftir klukkan sex í morgun varð bílvelta á Vatnsendavegi í Kópavogi. Ökumaður missti stjórn á bílnum í beygju og lenti utan vegar og skall í grjótvegg. Tveir voru í bílnum en þá sakaði ekki. Ökumaður er grunaður um ölvun við akstur.

Þá var bíl ekið útaf á Reykjanesbraut við álverið í Straumsvík um klukkan níu í morgun en lögreglan segir ekki um alvarlegt slys að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×