Handbolti

Aron: Hefur verið góð byrjun á mótinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Ingi Hrafnsson, Framari, og Arnar Pétursson, leikmaður Hauka, eru hér í ansi kröppum dansi í kvöld.
Einar Ingi Hrafnsson, Framari, og Arnar Pétursson, leikmaður Hauka, eru hér í ansi kröppum dansi í kvöld. Mynd/Eyþór

Aron Kristjánsson hefði viljað tvö stig í kvöld en var sáttur úr því sem komið var.

Lærisveinar Arons í Haukum mættu Fram á útivelli í þriðju umferð N1-deildar karla í kvöld. Niðurstaðan var jafntefli, 29-29, eftir æsispennandi leik.

„Miðað við leikinn allan erum við svekktir að hafa ekki náð tveimur stigum. En miðað við hvernig síðustu sekúndur leiksins voru getum við verið mjög sáttir," sagði Aron.

Sigurvergur Sveinsson tryggði Haukum jafnteflið með því að skora úr lokaskoti leiksins.

„Við vorum værukærir í varnarleiknum til að byrja með. Það gerði það að verkum að þeir náðu frumkvæðinu í byrjun leiks. Við komumst svo vel inn í leikinn og náðum ágætum tökum á vörninni.

Í seinni hálfleik gerðum við hins vegar allt of mörg mistök. Skytturnar þeirra áttu í engum vandræðum með að skjóta yfir okkur. En það var mikið um að vera í leiknum og hann var hraður og skemmtilegur. Úrslitin eru fín fyrir bæði lið og sanngjörn að ég held."

Hann segir að þeim fimm liðum sem var spáð efstu sætunum í N1-deild karla (Valur, Stjarnan, HK, Haukar og Fram) verði öll mjög jöfn að getu.

„Framarar eru til að mynda mjög erfiðir heim að sækja," sagði Aron. „En ég er sáttur og er ánægður með að vera kominn með fimm stig eftir þrjá leiki."

Sjá einnig:

Sigurbergur tryggði Haukum jafntefli

Björgvin: Aular að klúðra þessu 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×