Innlent

Formaður menntaráðs í skólaakstri

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar, Júlíus Vífill Ingvarsson, er stjórnarformaður rútufyrirtækis sem hefur hundruð milljóna króna samning um skólaakstur fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Júlíus segir skólaakstur aldrei koma inn á borð menntaráðs og hagsmunaárekstur því ekki fyrir hendi.

Fyrirtækið Iceland excursions Allrahanda - er ferðaskrifstofa og rútufyrirtæki. Fyrirtækið gerði samning við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2000 um akstur fatlaðra grunnskólabarna í skólann. Vel á annað hundrað barna eru nú keyrð með þessum hætti á liðlega tíu bílum, sem sumir eru sérstaklega útbúnir fyrir hjólastóla. Hörður Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Strætó bs, sagði í samtali við fréttastofu í vikunni að stefnt væri að því að bjóða aksturinn út að nýju á næsta ári. Hann tók fram að Allrahanda hefði staðið sig mjög vel í að þjónusta þessi börn.

Greiðslur til Allrahanda fyrir aksturinn hafa undanfarið verið á bilinu 75-80 milljónir króna á ári. Það þýðir um 500 milljónir á núvirði á síðustu sjö árum.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, tók við stjórnarformennsku í Allrahanda 9. janúar 2006 - fimm mánuðum áður en hann tók við sæti borgarfulltrúa - og formennsku í menntaráði. Hann segir skólaakstur aldrei koma inn á borð menntaráðs og því ekki um hagsmunaárekstur að ræða.

 

 

 

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×