Viðskipti innlent

Hagnaður Atorku sex milljarðar króna

Magnús Jónsson, forstjóri Atorku. Hann er ánægður með hagnað félagsins upp á sex milljarða króna.
Magnús Jónsson, forstjóri Atorku. Hann er ánægður með hagnað félagsins upp á sex milljarða króna. Mynd/Hörður

Móðurfélag Atorku Group skilaði hagnaði upp á sex milljarða krónur á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við tæpa 4,9 milljarða á sama tíma í fyrra. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi þremur milljörðum króna en það er um tveimur milljörðum krónum meira en félagið skilaði í fyrra.

Í árshlutauppgjöri Atorku kemur fram að heildareignir félagsins námu 54,8 milljörðum króna í enda júní. Eigið fé nam 21,5 milljarði króna og var arðsemi eigin fjár 70 prósent á ársgrundvelli. Eiginfjárhlutfall móðurfélagsins nam 39 prósentum.

Félagið seldi hlut sinn í Jarðborunum til Geysis Green Energy fyrir skemmstu fyrir 17,7 milljarða króna og innleysti hagnað frá upphafi fjárfestingarinnar fyrir um 11 milljarða króna. Þar af nemur hagnaðurinn á öðrum fjórðungi á fjórða milljarð, að því er segir í tilkynningu félagsins. Á móti gerðist Atorka kjölfestufjárfestir í Geysi Green Energy og keypti 32 prósenta hlut í félaginu fyrir sjö milljarða króna.

Samstæða Atorku tapaði hins vegar 226 milljörðum króna á fyrri hluta ársins en þar af nam tapið á öðrum ársfjórðungi 685 milljónum króna.

Haft er eftir Magnúsi Jónssyni, forstjóra Atorku, að afkoman sé mjög góð og sé salan á Jarðborunum til vitnis um árangursríka framkvæmd á fjárfestingarstefnu féalgsins.

Uppgjör Atorku Group






Fleiri fréttir

Sjá meira


×