Innlent

Tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti aukast um þriðjung

Fjármagnstekjuskattur hækkar um þriðjung á milli ára og nú greiða rösklega níutíuþúsund landsmenn skatt af fjármagnstekjum. Skattgreiðendum hefur aldrei fjölgað jafn mikið á milli ára en nú og er skýringin sá mikli fjöldi útlendinga sem bæst hefur á íslenskan vinnumarkað.

Næstu mánaðamót eru óvissumánaðamót hjá mörgum. Þá kemur í ljós hvað og hvort eitthvað dettur inn á bankareiknginn af barnabótum, vaxtabótum eða ofgreiddum sköttum. En strax í dag klukkan fjögur getur fólk nálgast álagningarseðil ársins á heimasíðu skattsins, skattur.is. Álagningarseðlarnir verða bornir út á morgun til þeirra sem ekki afþökkuðu álagningarseðla á pappír.

Samkvæmt tölum frá Fjármálaráðuneytinu hefur framteljendum aldrei fjölgað jafn mikið á milli ára, eða um rösklega 12.500 manns. Samtals greiða tæplega 254 þúsund einstaklingar skatta á þessu ári. Alls fær hið opinbera 185,5 milljarða í kassann, þar af fara rífir 87 milljarðar til sveitarfélaganna.

Niðurstaðan er að mestu leyti eins og við var búist nema áætlaður fjármagnstekjuskattur sem hækkar um tæplega 34%, nemur nú 16,3 milljörðum króna, og er greiddur af níutíu og þremur þúsund einstaklingum. Það þýðir að yfir þriðjungur skattgreiðenda borgar fjármagnstekjuskatt. Um helmingur af fjármagnstekjunum kemur af söluhagnaði.

Þá vaxa eignir heimilanna um 15% en skuldir um liðlega 21%. Útgreiddar barnabætur vaxa um 1,4 milljarða miðað við í fyrra og þeim sem njóta bótanna fjölgar um tæp 15 prósent. Um fimmtíuþúsund manns fá svo vaxtabætur um mánaðamótin og eru meðalbætur 106 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×