Innlent

Íslendingar heimsmeistarar í gervigreind

Sigurvegararnir Hilmar Finnsson og Yngvi Björnsson
Sigurvegararnir Hilmar Finnsson og Yngvi Björnsson MYND/HR

Íslenskur hugbúnaður bar sigur úr býtum í keppni alhliða leikjaforrita sem haldin var í Vancouver í Kanada. Keppninni lauk í gær eftir úrslitaleik hugbúnaðar frá Háskólanum í Reykjavík gegn Háskólanum í Kaliforníu, sem varð heimsmeistari fyrir tveimur árum og í öðru sæti í fyrra.

Þetta er í fyrsta skipti sem Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í keppninni. Mennirnir á bak við hugbúnaðinn sem sigraði eru dr. Yngvi Björnsson, dósent við Háskólann í Reykjavík og Hilmar Finnsson, meistaranemi í tölvunarfræðum við Háskólann í Reykjavík.

Stanford háskólinn í Bandaríkjunum stofnaði til keppninnar (AAAI General Game Playing Competition) fyrir þremur árum. Tilgangurinn var að hvetja til frekari rannsókna á þessu sviði, en leikir hafa í gegnum tíðina spilað veigamikið hlutverk í gervigreindarrannsóknum.

Sigur í keppninni þykir mikil viðurkenning á rannsóknarstafi viðkomandi háskóla, auk þess sem að hann veitir hugbúnaðinum sem sigrar heimsmeistaratign. Kaliforníuháskóli sigraði keppnina fyrsta árið sem hún var haldin. Í fyrra sigraði Tækniháskólinn í Dresden og í ár varð Háskólinn í Reykjavík þriðji heimsmeistarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×