Innlent

Iðnaðarráðuneytið endurskoðar virkjanaleyfi Múlavirkjunar

Iðnaðarráðuneytið vinnur að endurskoðun virkjanaleyfis Múlavirkjunar á Snæfellsnesi, í ljósi þess að framkvæmdir á svæðinu eru ekki í samræmi við upphaflegar áætlanir.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að Skipulagsstofnun telur sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepp ekki hafa sinnt eftirlitsskyldu sinni varðandi Múlavirkjun. Framkvæmdaáætlun sem samþykkt var af stofnuninni hefur ekki verið fylgt og hafa sveitarstjórn verið sendar athugasemdir.

Meðal annars um að vatnsborð Baulárvallavatns hafi hækkað, og að stöðvarhúsið sé stærra en leyfilegt sé samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðsins.

Iðnaðarráðuneytið vinnur að endurskoðun virkjanaleyfis Múlavirkjunar. Eyja- og Miklaholtshreppur lét Veiðimálastofnun gera tillögur að mótvægisaðgerðum, sem er ætlað að vernda lífríki svæðisins.

Lögfræðingur hjá ráðuneytinu segir þær tillögur hafa fengið jákvæð viðbrögð frá umsagnaraðilum, sem eru Skipulags-, Umhverfis- og Orkustofnun. Hugsanlegt sé þó að fleiri skilyrðum verði bætt við. Endurskoðað virkjanaleyfi Múlavirkjunar á eftir að bera undir ráðherra, en er að öðru leyti á lokastigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×