Innlent

Næturferðum Herjólfs ekki fjölgað frekar

MYND/365

Vegagerðin sér ekki ástæðu til þess að fara fram á það við Eimskip að fleiri næturferðir verði farnar milli lands og Eyja um verslunarmennahelgi en nú þegar hefur verið ákveðið. Þetta kemur fram í skeyti sem Elliða Vignissyni barst frá Gunnari Gunnarssyni aðstoðarvegamálastjóra í dag.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, lýsir í tilkynningu yfir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun og mun óska eftir skýrum svörum frá samgönguráðuneytinu um hvort ákvörðunin sé endanleg.

7678 manns hafa nú þegar pantað far með Herjólfi dagana 31. júlí til 10. ágúst og segir Elliði reynsluna hafa sýnt að megnið af pöntunum berast seinustu dagana fyrir Verslunarmannahelgi. Alls eiga 9875 manns pantað far til og frá Eyjum á tímabilinu og þar af 2197 með flugi.

Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri segir í samtali við Vísi.is að næturferðum hafi þegar verið fjölgað um þrjár um verslunarmannahelgina. Að sögn Gunnars er ekki orðið fullt í ferðirnar og var ákvörðunin meðal annars tekin með hliðsjón af því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×