Innlent

Saksóknari efnahagsbrota heldur að sér höndum

Saksóknari efnahagsbrota gefur ekki út neinar ákærur fyrr en Hæstiréttur hefur fjallað um dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í gær. Þetta er í annað sinn sem máli er vísað frá á grundvelli þess að ekki sé heimild til þess í lögreglulögum að fela saksóknaranum sjálfstætt ákæruvald.

Embætti Ríkislögreglustjórans benti héraðsdómi Norðurlands á að ákæru vegna skattalagabrota hefði verið vísað frá í byrjun júní, á grundvelli þess að það stæðist ekki lög að saksóknari efnahagsbrota hefði sjálfstætt ákæruvald. Var mælst til þéss að beðið yrði með að dómtaka málið þar til Hæstiréttur hefði skorið úr um fyrri frávísunina. Héraðsdómur hélt hinsvegar sínu striki og vísaði ákæru vegna fjögurra einstaklinga sem voru ákærðir fyrir að hafa nýtt sér kerfisvillu í heimabanka Glitnis við Gjaldeyrisviðskipti frá dómi í gær.

Reglugerðin sem saksóknarinn starfar eftir var sett um síðustu áramót á grundvelli lögreglulaga. Enginn dómur hefur enn fallið í máli sem saksóknari efnahagsbrota höfðar en tvö önnur slík mál eru fyrir dómi. Í dómi héraðsdóms segir að saksóknara efnahagsbrota sé með reglugerðinni í raun falið sjálfstætt ákæruvald en engin heimild sé til þess í lögreglulögum.

Helgi Magnús sagði við Stöð 2 í dag að standist reglugerðin ekki lög sé það mál Dómsmálaráðuneytisins. Hann efist hinsvegar um forsendur dómsins. Hann sagðist ennfremur skilja gagnrýni sakborninga í málinu sem þyrftu nú að bíða þess í tvo þrjá mánuði að málið yrði tekið til efnislegrar meðferðar. Hann sagðist hinsvegar ósammála gagnrýni þeirra á rannsókn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×