Viðskipti innlent

Áfangasigur gegn fótaóeirð

Vísindamenn ÍE hafa fundið erfðabreytileika sem tengist fótaóeirð. Niðurstöðurnar sýna að erfðafræðin gagnast við skilgreiningu sjúkdóma.
Vísindamenn ÍE hafa fundið erfðabreytileika sem tengist fótaóeirð. Niðurstöðurnar sýna að erfðafræðin gagnast við skilgreiningu sjúkdóma. MYND/GVA

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) hafa í samstarfi við Emory háskóla í Atlanta fundið fyrsta erfðabreytileikann sem tengist fótaóeirð. Í rannsókninni var einnig sýnt fram á að erfðabreytileikinn tengist minni járnbirgðum í líkamanum.

Einangrun erfðabreytileikans rennir sterkum stoðum undir þá kenningu að um eiginlegan sjúkdóm sé að ræða, en skiptar skoðanir hafa verið um það hvort fótaóeirð sé raunverulegur sjúkómur með líffræðilega orsök.

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir niðurstöður rannsóknarinnar sérstaklega athyglisverðar í því ljósi að þær sýna fram á að erfðafræðin getur komið að gagni við að skilagreina sjúkdóma. „Þessi uppgötvun á eftir að skila sér til sjúklinga í framtíðinni þegar kemur að klínískri greiningu á fótaóeirð."

Fótaóeirð er algengur sjúkdómur og er talið að fimm til tíu af hverjum hundrað einstaklingum á Vesturlöndum þjáist af honum. Helstu einkennin eru pirringur, óþægindi eða verkir í fótum sem eru oft verst á kvöldin og á nóttunni. Eiga þessir einstaklingar því oft erfitt með svefn. Sýnt hefur verið fram á tengsl á milli fótaóeirðar og sjúkdóma eins og þunglyndis og ýmissa hjartavandamála. Fótaóeirð er þó mjög vangreind og margir sem ekki vita að til sé meðferð sem slær á einkennin.

Hægt er að lesa nánar um fótaóeirð á Vísindavef Háskóla Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×