Viðskipti innlent

Afkoma ríkissjóðs umfram áætlanir

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. Mynd/Pjetur

Greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrstu fimm mánuðum ársins var hagstæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir í fjárlögum. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 34,1 milljarð króna sem er 5,9 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra.

Tekjur ríkissjóðs á fyrstu fimm mánuðum ársins námu 187 milljörðum króna, sem er 32 milljörðum hærri en í fyrra. Gjöld námu á sama tíma 145,2, sem er aukning upp á 18,9 milljarða. Mest munar um greiðslur almannatrygginga sem hækkuðu um 5,4 milljarða króna.

Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður á tímabilinu um 40,4 milljarða króna sem er 66,2 milljörðum lakar afkoma en á sama tíma í fyrra.

Viðsnúningurinn skýrist að mestu af kaupum ríkissjóðs á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun fyrir 30,3 milljarða krónur og eiginfjáraukningu Seðlabanka Íslands með 44 milljarða króna eiginfjárframlagi ríkissjóðs í byrjun maí, að sögn Fjármálaráðuneytisins.

Lántökur ársins námu um 46,5 milljörðum króna og hækka um 35,4 milljarða milli ára. Munar þar mestu um 26,9 milljarða króna lántöku vegna kaupa á Landsvirkjun. Þá voru 1,7 milljarðar greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs. Staða á sjóðs- og bankareikningum versnaði um 27,7 milljarða króna á fyrstu fimm mánuðum ársins.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×