Viðskipti innlent

Tap hjá Mosaic Fashions

Frá tískusýningu verslana Mosaic Fashions.
Frá tískusýningu verslana Mosaic Fashions.

Breska tískuvörukeðjan Mosaic Fashions, sem skráð er á markað hér á landi, tapaði 3,3 milljónum punda, rúmum 415 milljónum króna, á fyrsta ársfjórðungi, sem lauk í enda apríl. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 800 þúsundum punda, rúmum 100 milljónum króna.

Mosaic Fashions rekur tískuvöruverslanirnar Karen Millen, Oasis, Warehouse, Whistles, Shoe Studio, Coast og Principles. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs bættist svo verslanakeðjan Rubicon Retail í hópinn.

Sala verslananna jókst um 95 prósent á milli ára og nam 192 milljónum punda, jafnvirði tæpum 24,2 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður (EBITDA) jókst að sama skapi um 47 prósent og nam 14,8 milljónum punda, jafnvirði 1,8 milljarða króna

Í tilkynningu frá félaginu er haft eftir Derek Lovelock, forstjóra Mosaic Fashions, að afkoman hafi verið undir væntingum en hafi markaðsaðstæður í Bretlandi verið erfiðar. Hann sagði hins vegar að afkoma verslanakeðjunnar á öðrum mörkuðum hafi verið betri, ekki síst viðskipti á netinu, sem hafi verið umfram spár.

Fjárfestahópur, sem ræður yfir 64,4 prósentum hlutafjár í Mosaic Fashions, móðurfélagi tískuverslanakeðja, gerði fyrir nokkrum dögum formlegt yfirtökutilboð í Mosaic Fashions upp á 17,5 krónur á hlut.

Að fjárfestahópnum standa F-Capital ehf., dótturfélag Baugs, Kaupþing, Gnúpur fjárfestingafélag, Kevin Stanford, Karen Millen, The Millen Life Interest Settlement, Don M Ltd., Tessera Holding og stjórnendendur Mosaic, þar á meðal forstjórinn Derek John Lovelock og fjármálastjórinn Richard Glanville.

Mosaic Fashions er metið á 50,7 milljarða króna út frá tilboðsverði. Tilboðið er um 7,4 prósentum hærra en sem nam lokaverði 3. maí, daginn áður en viðræður hófust og um 11,1 prósenti umfram meðalverð hlutabréfa á sex mánaða tímabili fyrir umrædda dagsetningu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×