Viðskipti innlent

Fimm ára samfelldu vaxtarskeiði lokið

Landsframleiðsla var nánast óbreytt á fyrsta fjórðungi þess árs miðað við sama tíma í fyrra, að því er fram kemur í Hagtíðindum Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að einkaneysla hafi dregist saman um 1,2 prósent á milli ára og sé þar með lokið samfelldu vaxtarskeiði einkaneyslunnar sem staðið hefur frá því á fjórða ársfjórðungi árið 2002.

þjóðarútgjöld hafi dregist saman um tæp 10 prósent á milli ára þar sem einkaneysla er talin hafa dregist saman um 1 prósent og fjárfesting um 28 prósent. Samneysla jókst á sama tíma um 2 prósent.

Í Hagtíðindum segir að þrátt fyrir að einkaneysla hafi dregist saman þá sé raunin sú að flestir liðir hennar vaxi aðrir en bílakaup. Útgjöld Íslendinga erlendis hafi dregist sömuleiðis saman en útgjöld erlendra manna hér á landi hafi aukist á móti.

Í Hagtíðindum kemur fram að útflutningur hafi aukist á tímabilinu um 17 prósent en innflutningur dregist saman um 12 prósent. Hafi því árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dregist saman um 0,9 prósent frá fjórða ársfjórðungi í fyrra til fyrsta ársfjórðungs á þessu ári.

Fjárfesting er talin hafa dregist saman um rúm 28 prósent á fyrsta fjórðungi ársins.

Samdráttur í fjárfestingu atvinnuveganna nam 41 prósenti og í fjárfestingu hins opinbera um 7 prósent. Á sama tíma var hins vegar áframhaldandi vöxtur í íbúðarfjárfestingu, eða um 6,6 prósent á milli ára.

Hagtíðindi Hagstofu Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×