Viðskipti innlent

Verðbólga mælist 4,7 prósent

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,86 prósent á milli mánaða í maí en það jafngildir því að verðbólga mælist 4,7 prósent, samkvæmt útreikningum Haggstofu Íslands. Þetta er nokkuð meiri verðbólga en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir í spám sínum á dögunum. Töldur þær líkur á verðbólgan færi úr 5,3 prósentum frá síðasta mánuði allt niður í 4,3 prósent.

Samkvæmt Hagstofunni jókst kostnaður vegna eigin húsnæðis um 1,0 prósent en það er aðallega til komið vegna hækkunar á markaðsverði. Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um 1,3 prósent og verð á bensíni og díselolíu um 3,1 prósent.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,7 prósent en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 2,5 prósent.

Greiningardeildir bankanna voru nokkuð samstíga í spám sínum og gera ráð fyrir því að vísitala neysluverðs hækkaði allt frá 0,5 til 0,6 prósentustig á milli mánaða. Hefði það gengið eftir færi tólf mánaða verðbólgan úr 5,3 prósentum í 4,3 til 4,4 prósent.

Greiningardeildir bentu allar á að helstu óvissuþættirnir í fyrri spám þeirra hafi verið verðhækkanir á fasteignum og eldsneyti, ekki síst hráolíuverði sem hafi sveiflast mikið það sem af er árs.

 

 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×