Innlent

Rokkaður framboðsfundur

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar

Ungir frambjóðendur brugðu á leik í Stúdentakjallaranum í gærkvöldi ásamt rokkhljómsveitunum Vicky Pollard og Vafasöm síðmótun. Óhætt er að segja að framboðsfundurinn hafi verið fremur óhefðbundinn því hljómsveitirnar voru óhræddar við að þagga niður í frambjóðendum með því að þenja rafmagnsgítarana ef þeir héldu orðinu of lengi.

Áheyrendur voru flestir í yngri kantinum og málefnin sem helst brunnu á þeim þetta kvöld voru umhverfismál, jafnréttismál og hvers kyns félagslegt óréttlæti.

Vinstri grænir sendu meðal annars rokkarann Heiðu Eiríksdóttur sem er í þriðja sæti VG í Suðurkjördæmi og hún og Svanlaug Jóhannsdóttir frá Íslandshreyfingunni hófu leikinn með því að taka saman lagið. Helga Vala Helgadóttir sem skipar fimmta sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi var einnig óhrædd við að spreyta sig á sviðinu og flutti mikinn reiðilestur um menntamál með aðstoð bassa og trommu. Engir fleiri lögðu í að opinbera kunnáttu sína í pönki.

Aðrir þátttakendur voru til að mynda Jónína Byrnjólfsdóttir Framsókn, Sigríður Hallgrímdóttir og Arnar Þórisson Sjálfstæðisflokki, Reynir Harðarson Samfylkingu og Paul Nikolov frá Vinstri grænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×