Viðskipti innlent

Fasteignamarkaðurinn enn í góðum gír

Áfram er góður gangur á fasteignamarkaði miðað við nýbirtar tölur frá Fasteignamati ríkisins um veltu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í hálffimmfréttum Kaupþings í dag. Í apríl voru þinglýstir 803 kaupsamningar sem er um 12% færri kaupsamningar en í mars. Það má rekja má til þess að viðskiptadagar í apríl voru færri vegna páskanna.

Borið saman við sama mánuð í fyrra, þar sem páskarnir í fyrra voru einnig í apríl, þá fjölgar þinglýstum kaupsamningum um 30%. Heildarvelta á fasteignamarkaði nam 24,3 milljörðum króna og var meðalupphæð kaupsamninga rúmlega 30 milljónir.

Þá segir að miðað við ofangreindar tölur virðist ekkert benda til þess að kólnun sé framundan á fasteignamarkaðnum. Rekja má aukin umsvif á fasteignamarkaði til auðveldara aðgengis að lánsfé og mikillar bjartsýni íslenskra neytenda. Þá má jafnframt ætla að aukin ásókn íslenskra heimila í erlenda fjármögnun hafi átt sinn þátt í því að ýta undir frekari eftirspurn á fasteignamarkaði en gengisbundin lán íslenskra heimila námu í lok mars 103 milljörðum króna eða sem nemur um 14% af heildarskuldum heimila til bankakerfisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×