Innlent

Síbrotamaður í fimm ára fangelsi

MYND/GVA

Hæstiréttur dæmdi í dag síbrotamann í fimm ára fangelsi fyrir mikinn fjölda brota. Maðurinn var sakfelldur fyrir var nytjastuld, þjófnað, skjalafals, fjársvik, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot.

Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til langs sakaferils hans, ítrekunarborta, langrar brotahrinu, einbeitts brotavilja og þess að hann reyndi eftir fremsta megni að hylja slóð sína.

Þá rauf maðurinn skilyrði reynslulausnar með brotum sínum en hann átti eftir óafplánað á þriðja ár samkvæmt eldri dómi. Var sú refsing tekin upp og dæmd með. Til frádráttar fimm ára fangelsinu kemur gæsluvarðhald í fjóra daga í febrúar í fyrra og frá 15. september í fyrra til dagsins í dag.

Auk fangelsisvistarinnar var maðurinn sviptur ökurétti ævilangt og dæmdur til að greiða tveimur aðilum samtals um 430 þúsund í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×