Viðskipti innlent

Afkoma AMR í takt við væntingar

Bandaríska flugrekstrarsamstæðan AMR, móðurfélag bandaríska flugfélagsins American Airlines, skilaði hagnaði upp á 81 milljón bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 5,284 milljarða íslenskra króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Á sama tíma í fyrra tapaði félagið 89 milljónum dala, 5,88 milljörðum króna. Afkoman er í takt við væntingar greinenda.

Velta nam 5,4 milljörðum dala, jafnvirði 352,3 milljörðum íslenskra króna, sem er 1,6 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. 

AMR er fyrsta bandaríska flugfélagið til að skila inn afkomutölum fyrir fyrsta ársfjórðung. 

Greiningardeild Landsbankans bendir á það í Vegvísi sínum í dag að hagnaðurinn nemi 30 sentum á hlut, sem þó er einu senti undir spám. Þá er þetta í fyrsta sinn sem félagið skilar hagnaði á fyrsta fjórðungi ársins.

Deildin segir gengi bréfa í AMR hafa sveiflast mikið á árinu. Þannig hafi gengið hækkað um þrjú prósent það sem af sé dags en hækkunin frá áramótum nemur fimm prósentum.

FL Group keypti tæpan sex prósenta hlut í AMR undir lok síðasta ár en jók við hann í febrúar og er nú einn stærsti hluthafinn í því með 8,63 prósenta hlut.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×