Innlent

Óæskilegt að bújarðir safnist á fárra manna hendur

Forsætisráðherra telur óæskilegt að eignarhald á bújörðum, þar sem ekki er stundaður búskapur, safnist á fárra manna hendur. Um 40 prósent bújarða í Borgarfirði eru nú í eigu aðila sem ekki stunda búskap.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í sveitum landsins undanfarin ár þar sem bændur hafa margir selt jarðir sínar í hendur stóreignamanna, sem stunda ekki búskap á jörðunum.

Guðrún Fjeldsted, bóndi í Borgarfirði, hefur áhyggjur af þessari þróun og ynnti Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, eftir stefnu flokksins í þessum málum á landsfundi flokksins. Guðrún sagði að að á um 40 prósent bújarða í Borgarfirði væri ekki stundaður hefðbundinn landbúnaður.

Þetta þýðir að æ færri bændur standa undir þeim kostnaði sem fylgir því sækja fé á fjall á meðan stóreignamennirnir nota jarðir sínar ýmist sem heimili eða nýta hlunnindi án hefðbundins búskapar.

Forsætisráðherra segir þetta langt í frá að vera einfalt mál. Það sé verið að hagræða í landbúnaðinum og þar af leiðandi verði búin færri og stærri og við hagræðingunni sé ekki hægt að amast.

Geir benti hins vegar á að öllum væri frjálst að ráðstafa eigum sínum í frjálsum viðskiptum. Þrátt fyrir ýmis lög væri nú auðveldara að selja jarðir en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×