Viðskipti innlent

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs 4,4 milljarðar króna

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu 4,4 milljörðum króna í febrúar. Þar af voru 960 milljónir króna vegna leiguíbúðalána en almenn útlán sjóðsins námu 3,5 milljörðum króna. Meðallán almennra útlána námu 9,2 milljónum króna, að því er segir í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður segir brunabótamat fasteigna á höfuðborgarsvæðinu og víðar enn langt undir markaðsvirði.

Í mánaðarskýrslunni kemur fram að 28. febrúar síðastliðinn hafi Félagsmálaráðuneytið gefið út reglugerð um breytingu á lánshlutfalli og fjárhæð ÍLS-veðbréfa sem tók gildi 1. mars. Breytingin felur í sér að lánshlutfall almennra lána Íbúðalánasjóðs hækkar úr 80% í 90% og hámarksfjárhæð almennra lána hækkar úr 17 milljónum króna í 18 milljónir. Lánshlutfallið og hámarksfjárhæðin eru því færð í sama horf og þau voru áður en ríkisstjórnin greip til aðgerða í efnahagsmálum í lok júnímánaðar 2006. Reglugerð þessi tók gildi 1. mars s.l.

Þá segir að þar sem viðmið við brunabótamat er enn í gildi hefur þessi breyting afar lítil efnahagsleg áhrif þar sem brunabótamat er enn langt undir markaðsvirði á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Megi gera ráð fyrir að þetta geti komið þeim sem kaupa sína fyrstu íbúð til góða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×