Viðskipti innlent

Lækkun virðisauka á matvöru skilar sér að hluta

Vísitala neysluverð lækkaði um 0,34 prósent á milli mánaða og jafngildir það að verðbólga sé 5,9 prósent, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Þetta er 3,4 prósentustigum yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands.

Lækkun virðisaukaskatts á matvöru hefur skilað sér vel, því á tímabilinu lækkaði verð á mat og drykk um rúm sjö prósent.

Verð á veitingum lækkaði einungis um 3,2 prósent, en hefði átt að lækka um tæp níu prósent ef lækkun virðisaukaskatts hefði skilað sér að fullu og ekki komið til annarra verðbreytinga. Verðhækkun á fatnaði og skóm eftir útsölulok og aukinn kostnaður vegna húsnæðis vó upp á móti áhrifum af verðlækkun matvöru. Áhrif af lækkun vörugjalda og tolla eru þó ekki komin fram.

Á vef Hagstofunnar kemur fram að ef vísitalan er reiknuð án húsnæðis lækkaði hún um 0,86 prósent á sama tíma og er 243,2 stig.

Síðustu 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp sex prósent, en um rúm fjögur prósent ef húsnæði er ekki reiknað með. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,3 prósent sem jafngildir 1,4 prósent verðbólgu á ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×