Tónlist

Revíusýning hjá Slátrinu

SLÁTUR
SLÁTUR

Á laugardagskvöldið kl. 20 verður S.L.Á.T.U.R. með sýningu í aðalstöðvum sínum að Hverfisgötu 32 á revíunni ALLT GOTT. Þar með tekur þetta gamla form á sig nýtt sköpulag í faðmi raftónlistarmanna. Í fréttatilkynningu samtakanna segir: „Leikin verður margslungin tónlist, farið með gamanmál, tónrænar eftirhermur, hagstefjun og ýmislegt fleira.“ Er ljóst af tilkynningunni að hér er haldið til haga hinum vinsælu þáttum revíuformsins til forna, eftirhermum og gamanmálum margs konar.

Stór hópur listamanna kemur fram á Hverfisgötunni, bæði af erlendum og innlendum stofni. Þar má nefna hina írsku Barböru Ellison sem hefur hlotið mikið lof fyrir framsækna raflist sína víða erlendis. Frumflytja þau Heiða Árnadóttir, Þóranna Björnsdóttir og Barbara verk hennar, He: 2:4.0026 (Ode to a noble gas), sem er óður til hins frábæra frumefnis; Helíums.

Einnig kemur fram hljómsveitin Hestbak sem er skipuð þeim Áka Ásgeirssyni, Inga Garðari Erlendssyni, Guðmundi Steini Gunnarssyni og Páli Ivan Pálssyni. Hestbak hefur verið iðið við kolann undanfarið og er um þessar mundir að undirbúa tónleikaferð til Ameríku þar sem hljómsveitin mun leika með söng­spírunni Kríu Brekkan. Frá Berlín kemur Hjörleifur Jónsson og leikur m.a. verk fyrir dótapíanó eftir John Cage. Sérstakur gestur er Róbert Sturla Reynisson hagleiksmaður.

Revían er samstarfsverkefni Kokteilsósu og S.L.Á.T.U.R.s. Að­gengi er ókeypis og öllum frjálst meðan húsrúm leyfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×