Viðskipti innlent

Hlutabréf gefa ekkert eftir

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands.

Hlutabréfamarkaðurinn heldur áfram að hækka en Úrvalsvísitalan náði nýju hámarki í gær í 8.279 stigum. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 29,1 prósent og styttist óðfluga í það að hún hafi hækkað tvöfalt meira en allt árið í fyrra.

Greiningardeildir viðskiptabankanna spáðu því fyrr á árinu að árshækkun Úrvalsvísitölunnar yrði á bilinu 30-37 prósent. Það jafngilti því að vísitalan stæði í 8.333-8.782 stigum um næstu áramót.

Í Vegvísi Greiningardeildar Landsbankans er bent á það að Úrvalsvísitalan hafi sýnt betri ávöxtun en flestar helstu hlutabréfavísitölur heims. Þýska DAX-vísitalan kemst næst þeirri íslensku með um 20,3 prósenta hækkun á árinu.

Gengi tólf félaga hefur hækkað um fimmtung eða meira það sem af er ári. Hlutabréf í færeyska olíuleitarfyrirtækinu Atlantic Petroleum hafa rokið upp um 92 prósent en Vinnslustöðin kemur skammt á hæla þess með tæplega 89 prósenta hækkun.

Krónan veiktist um 0,98 prósent í gær. Greiningardeild Kaupþings spáir því að yfirtaka Novators á Actavis geti stutt bæði við krónuna og hlutabréfamarkaðinn á næstunni þar sem greitt verður fyrir bréfin í evrum. Samkvæmt áætlunum Kaupþings gætu allt að sjötíu milljarðar króna streymt aftur inn á markaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×