Viðskipti innlent

Ríkisstofnanir fá endurgreiðslu

Árni M. Mathiesen Fjármálaráðherra sést hér við opnun nýs þjónustuvefjar skattayfirvalda.
Árni M. Mathiesen Fjármálaráðherra sést hér við opnun nýs þjónustuvefjar skattayfirvalda. Myn/Vilhelm

Til stendur að endurgreiða ríkisstofnunum virðisaukaskatt af allri þjónustu sem þær kaupa af tölvu-og hugbúnaðarfyrirtækjum.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra upplýsti um þetta á ráðstefnunni „Útvistun - allra hagur“ sem haldin var fyrir helgi af Samtökum UT-fyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Ríkiskaupum og ráðuneytum fjármála, iðnaðar og viðskipta.

Með endurgreiðslunni á að leysa svokallað VSK-mál sem lengi hefur verið eitt helsta baráttumál upplýsingatæknigeirans. Bent hefur verið á að í núverandi fyrirkomulagi væri innbyggður hvati ríkisins til að halda úti eigin hugbúnaðar- og tölvudeildum, í stað þess að kaupa þjónustu frá einkaaðilum og með því væri samkeppnisstaða skekkt. Samkvæmt gildandi lögum leggja opinberir aðilar og fjármálafyrirtæki ekki virðisaukaskatt á þjónustu sína og geta ekki fengið hann endurgreiddan nema af tiltekinni skilgreindri þjónustu sem þeir kaupa af einkaaðilum. Þannig fæst ekki endurgreiddur virðisaukaskattur af hýsingu upplýsingakerfa.

Á fundinum sagði Árni að í fjármálaráðuneytinu væri þegar hafinn undirbúningur að gerð verklagsreglna sem gerðu endurgreiðslu mögulega og að ráð væri gert fyrir breytingunni við undirbúning fjárlaga 2008.

Sömuleiðis sagði hann að tækist vel til með breytinguna gagnvart þjónustukaupum tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja sæi hann ekkert því til fyrirstöðu að útfæra sömu lausn gagnvart annars konar þjónustu og vörusölu einkaaðila, líkt og Samtök iðnaðarins og fleiri hafi lagt til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×