Michael Platini, fyrrum landsliðsfyrirliði Frakka og núverandi stjórnarmaður UEFA, hefur gefið í skyn að hann muni breyta fyrirkomulaginu í Meistaradeild Evrópu fari svo að hann vinni forsetakosningar UEFA í næsta mánuði. Þar etur Platini kappi gegn Lennart Johansson, núverandi formanni.
Platini segir að það komi vel til greina að setja hömlur á fjölda liða frá Englandi, Ítalíu og Spáni. Platini telur að það séu of mörg lið frá stærstu deildum Evrópu sem taka þátt í þeirri álfukeppni sem Meistaradeildin er. Eins og er fá fjögur lið frá áðurnefndum deildum keppnisrétt í Meistaradeildinni en Platini vill minnka þau niður í þrjú talsins.
“Ég er fylgjandi því að hafa hámark þrjú félög frá hverju landi. Það gefur öðrum þjóðum betri möguleika á að ná árangri og vekja athygli í Meistaradeildinni,” segir Platini.