Viðskipti innlent

Olíuverð hækkaði um rúman dal

Við bensínstöð í Kína þegar verð á eldsneyti stóð í sögulegu hámarki.
Við bensínstöð í Kína þegar verð á eldsneyti stóð í sögulegu hámarki. Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu tók kipp í dag í kjölfar þess að aðildarríki OPEC, samtaka olíuútflutningsríkja, ákváðu að minnka olíuframleiðslu ríkjanna um allt að hálfa milljón olíutunna á dag frá og með febrúar á næsta ári. Heildarsamdrátturinn á árinu nemur 1,7 milljónum tunna á dag.

Búist var við því að samtökin myndu ákveða að draga úr olíuframleiðslu nú þegar en ákveðið var að bíða með það fram á næsta ár. 

Verð á olíu, sem afhent verður í janúar á næsta ári, hækkaði um rúman dal bæði á markaði í Bandaríkjunum og í Bretlandi í kjölfarið og fór í um 62,43 dali á tunnu.

Ali al-Jarrah al-Sabah, olíumálaráðherra Kúveit, sagðist ánægður með ákvörðun samtakanna og vísaði til fundar samtakanna í Doha í október þar sem ákveðið var að draga úr olíuframleiðslu til að sporna gegn frekari verðlækkunum á hráolíu og draga úr umframbirgðum á olíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×