Innlent

Sýknaður af skaðabótakröfu vegna slyss

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag húsasmíðameistara af ríflega 3,3 milljóna króna skaðabótakröfu byggingverkamanns sem slasaðist við störfum á vegum meistarans haustið 2001.

Það gerðist með þeim hætti að stór og þungur mótafleki sem verkamaðurinn klifraði upp losnaði frá vegg og féll til jarðar þannig að maðurinn varð undir honum og slasaðist talsvert.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að húsasmíðameistarinn væri skaðabótaábyrgur vegna slyssins en að verkamaðurinn ætti að bera þriðjung tjónsins vegna eigin sakar.

Varanleg öroka mannsins var metin 10 prósent vegna áverka á vinstri öxl en þess áverka var ekki getið í læknisfræðilegum gögnum fyrr en við læknisskoðun tveimur árum og níu mánuðum eftir slysið. Var því talið ósannað að orsakatengslu væru á milli slyssins og áverkans.

Tveir læknar mátu örorku hans ekki neina í kjölfarið og þegar tekið var tillit til greiðslna sem maðurinn hafði fengið úr launþegatryggingu og greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins taldist hann þegar hafa fengið tjón sitt fullbætt og var því húsasmíðameistarinn sýknaður af kröfu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×