Brasilíski ökuþórinn Felipe Massa hjá Ferrari hefur sent verðandi félaga sínum Kimi Raikkönen og öðrum keppinautum sínum aðvörun fyrir næsta keppnistímabil og ætlar sér stóra hluti.
Massa hefur verið í skugga Michael Schumacher hjá Ferrari í allan vetur, en vann sinn annan sigur á tímabilinu í heimalandi sínu um síðustu helgi - og það var í fyrsta sinn sem heimamaður vinnur kappaksturinn síðan Ayrton Senna heitinn gerði það árið 1993.
"Hingað til hef ég bara hjálpað liði mínu að stoppa upp í eyðurnar, en það breytist allt héðan í frá. Kimi Raikkönen er frábær ökumaður, en ekki láta ykkur detta það í hug að ég hleypi honum fram úr mér í keppni. Það er undir honum komið að sanna sig hjá liðinu og hann á ekki von á neinum greiðum frá mér - þó ég muni alltaf keppa heiðarlega," sagði Brasilíumaðurinn sem er 25 ára gamall.
Raikkönen gengur í raðir Ferrari fyrir næsta tímabil, en eftir að hafa lent í 2. sæti í stigakeppni ökuþóra árin 2003 og 2005, gekk ekkert upp hjá honum í keppninni í ár.