Innlent

ASÍ fagnar úrskurði Kjararáðs

Kjararáð hefur úrskurðað að laun þjóðkjörinna manna, ráðherra, dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem ekki hafa samningsrétt, hækki um 3% og er hækkunin afturvirk til 1. júlí. Alþýðusamband Íslands telur úrskurðinn fagnaðarefni.

Með hækkuninni hafa laun þessa hóps, sem telur hátt í 1000 manns, hækkað um 5,5% á árinu.

Það olli nokkrum deilum í fyrra þegar Kjaradómur úrskurðaði að þeri sem undir hann heyrðu skyldu fá 8% launahækkun, nema forseti Íslands sem átti að fá 6%. Þessar hækkanir voru síðan afturkallaðar og ákveðið að fylgja launahækkunum á almennum markaði sem námu 2,5%.

Kjaranefnd og Kjaradómi var síðan steypt saman í Kjararáð og nú er spurningin hvort ákvarðanir þess verði minna umdeildar en fyrirrennarans.

Kjararáð hefur enn ekki ákveðið hverjir muni framvegis sæta launaákvörðunum þess og nær úrskurðurinn nú því til allra sem bæði kjaradómur og kjaranefnd ákváðu laun fyrir gildistöku nýju laganna sem sameinuðu starfsemi þeirra.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir verkalýðshreyfinguna mjög sátta við þennan fyrsta úrskurð ráðsins, því hann miði greinilega við launaþróun á almennum markaði. Launaþróunartrygging ASÍ, sem var ein forsendan fyrir því að kjararsamningar héldust út árið 2007, hljóðar einmitt upp á 5,5% hækkun launa frá 1. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×