Innlent

Fær ekki að koma til Íslands í áratug

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. MYND/Valgarður Gíslason

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í dag úrskurð dómsmálaráðuneytis frá í apríl í fyrra um að Víetnömskum manni, sem nú er staddur í heimalandi sínu, verði vísað úr landi og bannað koma aftur til Íslands næstu 10 árin.

Í gögnum málsins kemur fram að maðurinn kom til Íslands með móður sinni í júlí 2001, en hann var þá 16 ára gamall. Hann fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldu­tengsla sem gilti til 1. desember sama ár. Dvalarleyfi stefnanda var þá endur­nýjað og gilti til 20. mars 2003, en 9. apríl sama ár fékk hann útgefið nýtt dvalarleyfi sem gilti til 20. mars 2004. Móðir stefnanda fékk búsetuleyfi hér á landi í júlí 2004. Faðir stefnanda og bróðir búa einnig hér á landi en þeir komu til Íslands árið 2002. Hefur hvorugur þeirra fengið búsetuleyfi hér.

Í apríl 2002 var maðurinn dæmdur í tveggja ára, skilorðsbundið fangelsi vegna brota gegn almennum hegningarlögum. Þá var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur rúmu ári síðar þar sem maðurinn var dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás og kynferðisbrot gegn barni. Rúmu hálfu ári síðar var hann auk þess dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir líkamsárás. Loks var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Vesturlands í júní 2004 þar sem stefnandi var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir minniháttar líkamsárás sem átti sér stað þegar stefnandi var í refsivist á Kvíabryggju. Vegna þessara dóma var stefnandi í fangelsi í rúmt ár en vegna ungs aldurs fékk hann reynslulausn í tvö ár eftir helming afplánunar í ágúst 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×