Innlent

Draga á úr framkvæmdum

Árni Mathiesen fjármálaráðherra
Árni Mathiesen fjármálaráðherra MYND/NFS

Gert er ráð fyrir áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum í nýju fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í dag. Draga á úr framkvæmdum á vegum ríkisins fyrir utan framkvæmdir í samgöngumálum og atvinnuleysi kemur til með að aukast.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp ársins 2007 á Selfossi nú fyrir hádegið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 15,5 milljarðar króna en afgangurinn verður 23 milljörðum krónum meiri en reiknað var með í langtímaáætlun.

Gert er ráð fyrir að áfram verði stöðugleiki í efnahagsmálum. Dregið verður úr framkvæmdum á vegum ríkisins fyrir utan framkvæmdir í samgöngumálum. Jafnframt er gert ráð fyrir að hagvöxtur lækki og verði 1% á næsta ári en verðlag hækki um 4,5%. Atvinnuleysi eykst á næsta ári og verður 2,1%.

Frumvarpið felur í sér umtalsverðar hækkanir á barnabótum sem eru í samræmi við samkomulag ríkisins og Alþýðusambands Íslands. Skattar halda áfram að lækka en í útgjöldum ríkisins er lögð áhersla á almannatryggingar, velferðar-, heilbrigðis- og samgöngumál.

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna lækkunar matvælaverðs né auknu fjármagni í fangelsismál. Fjárlögin gera ráð fyrir 1% samdrætti í heilbrigðismálum.

Nokkra athygli hefur vakið að Árni hafi ákveðið að kynna frumvarpið á Selfossi í sínu kjördæmi. Árni ákvað nú í haust að færa sig úr Suðvesturkjördæmi yfir í Suðurkjördæmi. Árni segir sjálfur ekkert athugunarvert við staðsetningu kynningarinnar, hann hafi kynnt mörg frumvarpa sinna víða um landið.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×