Kvennalið Bandaríkjanna fetaði í fótspor karlaliðsins í dag þegar liðið tapaði óvænt fyrir Rússum 75-68 í undanúrslitum á HM. Bandaríska liðið var tvöfaldur heimsmeistari og Ólympíumeistari fyrir leikinn og hafði liðið unnið 26 leiki í röð á HM, en síðasta tap þeirra var gegn Brasilíu á HM árið 1994. Það verða því lið Rússlands og Ástralíu sem leika til úrslita um helgina, en mótið fer fram í Brasilíu.
Lið Bandaríkjanna bar sigurorð af því rússneska í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins á dögunum 90-80, en í dag var annað uppi á teningnum, þar sem bandaríska liðið hitti afar illa á meðan allt gekk upp í sóknarleik Rússa.
Oxana Rakhmatulina var stigahæsti í liði Rússa með 18 stig, en Diana Taurasi var stigahæst í bandaríska liðinu með 21 stig og Tina Thompson skoraði 15 stig.
Kvennalið Bandaríkjanna hefur sjö sinnum orðið heimsmeistari í kvennaflokki, en tapið liðsins í dag var aðeins annað tapið í síðustu 79 leikjum liðsins á stórmóti. Þetta er því annað áfallið á skömmum tíma fyrir bandarískan körfubolta, því karlaliðið varð að láta sér nægja bronsverðlaun á öðru stórmóti sínu í röð á HM í Japan á dögunum.