Innlent

FÍS harmar óviðeigandi samhengi hlutanna

Í framhaldi af viðtölum við Jóhannes Jónsson í Þættinum "Örlagadagurinn" á Stöð 2 og NFS tvo sunnudaga í ágúst harmar stjórn FÍS - Félags íslenskra stórkaupmanna, að félagið og einstakir forsvarsmenn þess hafi verið nefndir á nafn í óviðeigandi samhengi. FÍS segir fjölmörg aðildarfélög samtakanna eiga í miklum og góðum viðskiptum við ýmis fyrirtæki Baugs þar sem báðir njóti góðs af. Það sé því síst í þeirra þágu að fræjum tortryggni sé sáð á þessum vettvangi.

Í tilkynningu FÍS segir að hlutverk samtakanna sé og hafi ætíð verið að gæta hagsmuna aðildarfélaga sinna með því að vera framvörður heilbrigðra verslunarhátta og reyna eftir megni að tryggja réttlátar leikreglur í samkeppni og þannig efla hag verslunar á Íslandi. Forsvarsmenn FÍS hafi því oft tekið þátt í opinberri umræðu um verslun og hagsmunamál greinarinnar en markmið félagsins hefur ávallt verið að hafa umræðuna málefnalega og án þess að draga einstaklinga eða einstök fyrirtæki þar inn í.

Stjórn FÍS notar tækifærið og býður Jóhannesi Jónssyni og öðrum forráðamönnum Baugs til heimsóknar á skrifstofu FÍS þar sem þeim gæfist tækifæri til þess að kynna sér starfsemi og markmið FÍS enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×