Staðan í leik Þjóðverja og Íra í D-riðli undankeppni EM er jöfn 0-0 þegar flautað hefur verið til leikhlés, en viðureign þessi er sýnd í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn. Þjóðverjar hafa verið öllu sterkari það sem af er og hafa þeir Lukas Podolski og Miroslav Klose báðir fengið upplögð marktækifæri sem þeir náðu ekki að nýta.
Fyrr í dag lögðu Frakkar Georgíumenn 3-0 á útivelli í B-riðli með mörkum frá Malouda og Saha, en þriðja markið var sjálfsmark Georgíumanna. Í sama riðli lögðu Skotar Færeyinga 6-0 og heimsmeistarar Ítala eru aðeins að gera 1-1 jafntefli við Litháa á heimavelli sínum þegar leikurinn er hálfnaður.
Bosníumenn lögðu Möltu 5-2 á útivelli í C-riðli, en þar eru Norðmenn sem stendur að bursta Ungverja á útivelli 4-0 þegar enn eru 10 mínútur eftir af leiknum. Loks má geta þess að Svíar eru að vinna Letta 1-0 á útivelli þegar 10 mínútur eru eftir af leiknum - en þessi lið leika með okkur Íslendingum í riðli.