Viðskipti innlent

Tap á rekstri Leifsstöðvar

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd/Teitur
Rétt rúmlega eins milljarðs krónu tap varð á rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLE) á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma fyrir ári skilaði rekstur flugstöðvarinnar 380 milljóna króna hagnaði. Hluti tapsins er kominn vegna gengistaps en stór hluti skulda FLE er í erlendri mynt.

Í tilkynningu frá FLE segir að heildartekjur félagsins hafi numið rúmum 3 milljörðum króna á tímabilinu og er það 12 prósenta aukning á milli ára. Fjölgun farþega sem fara um flugstöðina vegur þyngst í aukningu tekna, en þeim hefur fjölgað um rúm 11 prósent fyrstu sex mánuði ársins miðað við síðasta ár. Farþegum til og frá landinu hefur fjölgað um rúmlega 16 prósent, en þeir eru helstu viðskiptavinir flugstöðvarinnar, að því er segir í tilkynningunni.

Þá segir að hluti af tapi FLE sé komið til baka við lok tímabilsins.

Rekstrargjöld FLE hækkuðu um 9 prósent á milli ára en hlutfall hagnaðar fyrir afskriftir af rekstrartekjum er nú 32,4 prósent samanborið við 31 prósent fyrir sama tímabil í fyrra.

Hagnaður FLE fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 986 milljónum króna samanborið við 840 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins 2005.

Í tilkynningunni kemur fram að rekstur FLE hafi verið umfram áætlanir það sem af er þessu ári þrátt fyrir miklar framkvæmdir sem nú standa yfir í flugstöðinni.

Fjárfestingar félagsins á tímabilinu eru rúmlega 2,2 milljarðar.

Eignir FLE námu rúmum 16 milljörðum króna í lok júní og höfðu aukist um 16 prósent frá áramótum. Vegna framkvæmda og óhagstæðrar gengisþróunar hafa langtímaskuldir félagsins vaxið úr 6,5 milljörðum um síðustu áramót í 9,6 milljarða í lok júní. Eigið fé nam 4,6 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 28 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×