Innlent

Arnar HU með mesta kvótann

Mynd/Jón Sigurður

Arnar HU frá Skagaströnd er með alls 6692 tonna kvóta á næsta fiskveiðiári ef miðað er við þorskígildi, en það er hæsti þorskígildiskvóti allra íslenskra skipa. Alls fá 414 skip úthlutað nýjum fiskikvóta en nýtt kvótaár hófst á miðnætti í nótt.

Alls eru þjú skip með meira en 6000 tonna þorskígilda kvóta á fiskveiðiárinu auk Arnars, en það eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Kaldbakur EA og Júlíus Geirmundsson ÍS. Vilhelm Þorsteinsson er með langstærstan ýsukvóta einstakra skipa á næsta fiskveiðiári, rúm 3300 tonn, en það er Samherji hf. sem gerir út togarann. Þá eru frystitogararnir Ásbjörn RE og Ottó N. Þorláksson RE eru með stærstu ufsa- og karfakvótana á fiskveiðiárinu 2006/07. Ufsakvóti Ásbjörns er rúm 3500 tonn en Ottó er með rúm 4100 tonna karfakvóta á fiskveiðiárinu. Báðir togararnir eru gerðir út af HB-Granda.

Frystitogarinn Björgvin EA er með mestan þorskkvóta á næsta fiskveiðiári. Þorskkvóti skipsins er alls 3020 tonn en alls eru 11 skip með þorskkvóta sem er meiri en 2000 tonn. Alls fá rúmlega 500 bátar úthlutað kvóta í krókaaflamarki.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar varðandi sérstakar úthlutanir. Sóknardagakerfi hefur verið lagt af en aðeins var einn bátur eftir á sóknardögum á fiskveiðiárinu 2005/2006 líkt og fram kemur á heimasíðu Fiskistofu. Þá eru sérstakar úthlutanir til krókaaflamarksbáta og úthlutanir frá Byggðastofnun liðin tíð og sömuleiðis úthlutun úr svonefndum 3.000 tonna potti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×